Færsluflokkur: Bloggar

Uppgötvaði krumma í Hveragerði

P1240007 

Ekki það að ég hafi ekki verið meðvituð um krumma fram til þessa. Heldur fékk ég alveg nýja sýn á þennan líka frábæra og skemmtilega fugl þegar ég dvaldi í Hveragerði um mánaðarskeið í febrúar 2008.
Það er mikið af hröfnum í Hveragerði og sökum þess hversu víðsýnt er á þessum slóðum, sléttlendi svo langt sem augað eygir og hægt að sjá á heimsenda að manni finnst, þá ber mikið á hrafninum. Þarna voru hrafnar í tugatali og fannst mér óskaplega gaman að fylgjast með hegðun þeirra. Þeir léku sér meira og minna allan daginn, flugu listflug einir eða tveir til þrír saman. Ég varð gjörsamlega heilluð af þessu og fór að fylgjast enn betur með hegðun þeirra frá morgni til kvölds. Ég tók til dæmis eftir því að þeir komu margir upp í loftið af sama staðnum við sólarupprás á morgnana. Tugir hrafna flugu upp frá sama staðnum, sveimuðu í kös um stund, en flugu svo hver í sína áttina, allar áttirnar fjórar. Ég velti fyrir mér hvort þeir væru búnir að skpuleggja daginn, það er hvert hver þeirra ætti að fljúga þann daginn. Svo sá maður þá á sveimi tvo og þrjá saman yfir bænum yfir daginn. Greinilegt að þeir voru að leyta að fæðu og sá maður spenninginn meðal þeirra þegar einn var með eitthvað góðgæti í gogginum og hinir komu og að manni virtist reyndu að hrifsa góðgætið úr goggi þess sem hafði hnossið í sínum goggi. En allt virtist þetta vera í mestu vinsemd og eins og athöfnin væri meira leikur en barátta um bitann.


Krunk

P1210007

Þetta blogg er tileinkað krumma og mun þegar fram í sækir birta ýmsan fróðleik og sögur af íslenska hrafninum ásamt því að kynna "Hrafninn sem flýgur", verkefni sem er í vinnslu og verður upplýst um síðar.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband