21.7.2010 | 13:04
Krummasaga úr þjóðsögum Jóns Árnasonar
Í Vatnsdal fyrir norðan er mælt að nokkrir
bæir hafi farist af skriðum sem fallið hafa
úr svokölluðu Vatnsdalsfjalli. Meðal þessara
bæja er einn nefndur sem hét Gullberastaðir.
Bóndadóttirin hafði haft þá venju að gefa
bæjarhrafninum ætið þegar hún borðaði.
Einu sinni þegar hún eftir venju sinni rétti
honum út um gluggann það er hún ætlaði að gefa
honum þá vildi krummi ekki taka við. Stúlkuna
furðaði á þessu og fór út með það. Krummi kom
mikið nálægt henni, en vildi þó ekki þiggja snæðinginn,
lét samt einlægt líklega svo hún elti hann út í túnið
nokkuð frá bænum. En þegar þau voru komin þangað
þá heyrði hún miklar dunur uppi í fjallinu og allt í
einu féll skriðan báðumegin við þau, en við þann blett
er þau stóðu á kom hún ekki. Bærinn fór af,
svo krummi launaði henni þannig matinn.
En orsökin hvers vegna
skriðan féll ekki yfir blettinn sem þau voru á er
sagt að hafi verið sú að þegar Guðmundur biskup
einhverju sinni hefði verið á ferð þá hafði hann tjaldað
á þessum blett og áður en hann færi burt hefði hann
vígt tjaldstaðinn eins og hann víðar hefði verið
vanur að gjöra. ...
Flokkur: Menning og listir | Breytt 26.7.2010 kl. 14:27 | Facebook